sunnudagur, 17. apríl 2016

Kenny Atkinson ráðinn næsti þjálfari Nets

Kenny Atkinson, núverandi aðstoðarþjálfari Atlanta Hawks, var í dag kynntur til leiks sem nýr þjálfari Brooklyn Nets. Adrian Wojnarowski greindi frá þessu. 

Hann tekur við liðinu eftir tímabilið en þjálfarastaðan hjá liðinu hefur verið laus í nokkra mánuði eftir að Lionel Hollins var rekinn í janúar á þessu ári. Tony Brown var svo fenginn til þess að klára tímabilið með félaginu. 

Atkinson klárar þetta tímabil með Hawks-liðinu sem er í úrslitakeppninni um þessar mundir en liðið er í 1-0 forystu í einvíginu gegn Boston Celtics í fyrstu umferð Austurdeildarinnar. 

Atkinson hefur frá árinu 2012 verið aðstoðarmaður Mike Budenholzer hjá Hawks en á undan því var hann aðstoðarmaður Mike D’Antoni hjá New York Knicks, árin 2008-12. Atkinson verður þá sjötti aðalþjálfari Nets eftir að félagið færði sig til Brooklyn árið 2012.

Ekki er vitað hvað Kenny Atkinson gerir langan samning við Nets sem aðalþjálfari.

Heimild: Yahoo! Sports